Er hægt að bæta Breiðuvíkurbörnum glæpina með peningum?

Athyglisverð og málefnaleg umræða fór fram á alþingi sl. þriðjudag, þar sem skýrsla nefndar um málefni uppeldisheimilisins á Breiðuvík á árunum 1952 - 79 var rædd. Það liggur fyrir að mikil vinna hefur verið lögð í skýrsluna enda hefur fortíð heimilisins verið í mikilli umræðu og liggur þungt á þjóðinni. Geysilegar tilfinningasveiflur og taugahræringar hafa dunið á þjóðinni vegna þessa máls enda sumir verknaðir sem þarna voru framdir á varnarlausum börnum hroðalegir og óverjandi. Það er jafnvel enn óhugnanlegra, að slíkar „uppeldisaðferðir“ þóttu eðlilegar og allt að því æskilegar fyrir aðeins 50 til 60 árum. Nútímafólk á erfitt með að átta sig á horfinni hugsun og hugmyndum sem jafnvel menntaðir sérfræðingar aðhylltust og beittu.
Margir alþingismenn nefndu einmitt þessa staðreynd og vöruðu réttilega við of hörðum áfellisdómum yfir starfsliði Breiðuvíkur. Það er rétt að flest starfsfólkið taldi sig vera að stunda góða vinnu og sjálfsagða enda stutt af embættisvaldi og sérfræðingahópum. Sökin liggur þess vegna mun ofar en hjá starfsfólki hinnar gömlu Breiðuvíkur. En auðvitað leyndust fól og óþokkar meðal stjórnenda og starfsmanna heimilisins. Þess vegna er erfitt að draga upp skýra heildarmynd af Breiðuvík. Kristinn H. Gunnarsson sem hélt stórmerkilega ræðu á alþingi um málið, benti réttilega á, að nefndin sem gerði skýrsluna, nefnir að erfitt sé að benda á brot og sökudólga í þessu máli svo seint eftir á.
Það þýðir, eins og Kristinn bendir á, að enga dóma er hægt að fella yfir einum eða neinum.
Ríkisstjórnin hefur þegar gert það sem henni bar að gera: Láta fara fram opinbera rannsókn á Breiðuvík og boða fleiri rannsóknir á öðrum uppeldisheimilum á 20. öld á Íslandi. Jafnframt hefur ríkisstjórn Geirs Haarde beðið fórnarlömb Breiðuvíkur afsökunar fyrir hönd þeirra ríkisstjórna sem settar voru á sínum tíma yfir Breiðuvík. Meira er reyndar ekki hægt að gera.
Uppi hafa verið hugmyndir um að ríkið greiði uppkomnu fólkinu sem voru börn á Breiðuvík bætur í peningum fyrir þann skaða sem þau urðu fyrir á sínum tíma. Í fyrstu virðist þessi hugmynd sanngjörn og allt að því eðlileg. Við nánari athugun er hún illgjörleg og nánast út í hött. Í fyrsta lagi: Ef nefndin er þeirrar skoðunar að ekki sé hægt að rannsaka málið með tilliti til refsihæfi einstaklinga svo langt aftur í tímann, hvernig á þá að meta einstakar bætur? Hvernig ætla menn að verðleggja þjáningu hvers og eins? 10 þúsund krónur fyrir rassskellingu? 50 þúsund krónur fyrir vistun í klefa með rimlum? 70 þúsund fyrir líkamlegt ofbeldi eins og högg og spörk? 65 þúsund fyrir andlegt ofbeldi? 100 þúsund fyrir kynferðislega misnotkun? Eða kannski 400 þúsund? Eða meira? Fengu sumir krakkanna skárri útreið en aðrir þótt refsingarnar hafi verið þær sömu? Eiga þeir þá að fá lægri bætur en hinir? Og hverjir eiga að ákveða bæturnar? Ekki alþingi því væntanlega heyrði slíkt bótamat undir dómskerfið en ekki lagakerfið. Við verðum að virða þrískiptingu valdsins. Og ef málið er ekki lengur dómtækt , hverjir eiga þá að annast málarekstur og dóm?
Þessi hugmynd er gjörsamlega fallin um sig sjálfa. Ríkið hefur þegar beðist afsökunar. Það er kannski þarfasti gjörningur ríkisins. Næst á ríkið að sjálfsögðu að láta meta hvernig má bæta þá þætti sem teknir voru af hinum óhamingjusömu einstaklingum í æsku; er hægt að bæta menntun þeirra eða starfsþjálfun? HJálpa því við að nýta meðfædda hæfileika sem aldrei fengu þjálfun. Kannski aðstoða fólkið við atvinnuleit?
Og síðast en ekki síst: Ríkinu ber að aðstoða hin uppkomnu börn varðandi læknisaðstoð og geðhjálp; leggja sitt að mörkum að gera hina vanræktu einstaklinga að hæfum einstaklingum á nýjan leik. Það hlýtur að vera bæði heillaríkara og mannlegra en að henda seðlum í hið óhamingjusama fólk sem margt hefur beðið mikinn skaða á líkama og sál að lokinni bernsku í Breiðuvík.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband