ESB eða gömlu katlarnir?

Matvælaverð hérlendis gæti lækkað um fjórðung. Vextir á íbúðalánum myndu lækka verulega. Tollar milli Íslands og núverandi ESB ríkja myndu falla niður. Hefur einhver áhuga á þessum breytingum? Ef svo er, má spyrja í framhaldi: Hefur einhver áhuga á að landið gerist aðildarríki að Evrópusamtökunum? Auðvitað hefur fjöldi Íslendinga áhuga á því. Hvers vegna heyrist minna í þeim er vörubílstjórum sem loka stofnleiðum og flauta fyrir utan alþingi? Vegna þess að fyrrum þjóðarfaðirinn Davíð bannaði alla umræðu um ESB og evruna. Menn hlýddu því. Og hlýða enn. Fyrir tveimur árum sagði þingmaður Sjálfstæðisflokksins grafalvarlegur við mig að það að ganga í ESB jafnaðist á við föðurlandssvik. Hvorki meira né minna! Þessi fáránlega skoðun er enn uppi á borðum hérlendis. Eftir að hafa fylgt línu hinna Norðurlandanna í öllum málum í Sameinuðu þjóðunum og eftir að hafa verið nýlenduþjóð Dana og undirlægjur Bandaríkjamanna erum við allt í einu hrædd um að gerast svikarar við ættlandið ef við veltum fyrir okkur aðild að ESB! Eins og flestar Evrópuþjóðir hafa gert?!
Það eru ekki aðeins peningaleg rök sem sýna fram á að Íslendingar eigi að ganga í ESB: Varnar - og öryggismál, samhæfing menningar - og dómsmála og annarra þátta myndu gera Ísland að mun sanngjarnara og heilbrigðara landi að búa í. Þeir sem berast gegn aðild Íslands í ESB, berjast gegn dauða gömlu forréttindahópanna; dekruðu kapítalistanna, gömlu samvinnuklíkanna og þar fram eftir götunum. Pólitíkusar eru logandi hræddir að gefa frá sér íhlutunarvöld þeirra í uppbyggingu og stjórnun í íslensku samfélagi. Þeir vilja halda í 3ö til 40 ára gamalt samfélag þar sem samkeppni var aðeins áróðursorð. Þar var ákveðnum flokksgæðingum sköpuð völd og aðkoma að kötlunum, en öðrum ekki. Þá var Ísland samfélag þeirra pólitískt útvöldu. Í dag hefur frjáls markaður og frjálst peningastreymi brotið upp gömlu höftin. Það eigum við fyrst og fremst inngöngu okkar í EES að þakka. Þess vegna munum við að lokum ganga í Evrópusamtökin. Íslensk þjóð mun krefjast þess. Íslendingar munu einfaldlega krefjast betri og sanngjarnari framtíðar.

« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband